Reynslusögur

Hér að neðan er búið að taka saman reynslusögur sem eiga að gefa betri innsýn inní skipulag á prófinu, þá sérstaklega munnlega hlutanum, ekki skal taka því sem heilögum sannleika.  Hver og einn prófdómari er mismunandi og aðalmálið er að vera vel undirbúinn að svara á ensku og tala um efnið af öryggi.

Gangi ykkur vel!

 Reynslusaga 1

Ég tók inntökuprófið fyrir University of Debrecen rúmri viku eftir að hafa þreytt inntökuprófið hérna heima. Ég hafði undirbúið mig mjög vel fyrir prófið heima og kom það sér mjög vel. Fyrir inntökuprófið fyrir Unideb senda þau á mann glósur í líffræði og efnafræði sem eru nokkuð ágætar. Mikilvægt er að kunna þær ásamt því að lesa dýpra í efnið. Þau senda einnig út gátlista fyrir hvert fag sem að þarf að hafa á hreinu en einnig spurja þau út í efni utan hans. Prófið er mjög þæginlegt maður getur valið að taka saman líffræði og efnafræði + smá eðlisfræði eða líffræði og eðlisfræði + smá efnafræði. Hafa þarf í huga að engar formúlur eru gefnar hvorki í eðlisfræði né efnafræði. Prófið er sett upp þannig að fyrst er tekið skriflegt próf, síðan fara allir út, síðan er kallað á fólk og það látið koma inn í munnlegt próf. Það sem að er langt mikilvægast á prófstaðnum er að lúkka rólegur og yfirvegaður og hafa fulla trú á sjálfum sér. Prófdómararnir eru “fake” leiðinlegir við langflesta og spyrja leiðinlega en með því eru þau bara að testa þig til þess að sjá hvernig að þú bregst við undir mikilli pressu sem framtíðar læknir. Þá er mikilvægt að halda bara ró sinni og vera með gott ,,poker face” eins og að þú sért með allt undir control og muna bara að þú ert að fara komast inn í þennan skóla!! Í ungverjalandi tíðkast það að mæta mjög fínn og vel til hafður í próf, með því er maður að sýna pófdómaranum mikla virðingu og annað er ekki boðlegt. Því er mjög mikilvægt að mæta fínn í prófið t.d í kjól, fínni skyrtu og buxum með smá skart.

Hvað varðar prófspurningar eru þær mjög mismunandi og oftast eru nokkrar týpur af prófum í gangi í einu á prófstaðnum, þannig flestir fá ekki sama prófið. Á mínu prófi var t.d spurt út íHardy Weinberg lögmálið, basic erfðafræði reikningur í töflu að reikna líkur á afkvæmum sem að væru arfhrein og arfblendin. Fruman er líka mjög vinsæl og hennar frumulíffæri ásamt electron transport chain, glýkólýsu ofl. Í eðlisfræðinni eru þeir mest að horfa á rafmagnseðlisfræðina , plötuþétti, rafsegulróf, lögmál Ohms ásamt almennri kraftafræði þar sem að spurt er út í kassa á skáfleti og kraftana sem að á hann verka og núningskraftinn og hvaðan hann er kominn. Efnafræðin er mestmegnis lífræn en þó eru reikningsdæmi á prófinu, raða suðu og bræðslumarki efna í röð eftir hækkandi/lækkandi og lewis byggingar, nefna almenn efni og skrifa efnaformúlur fyrir efni þar sem að nafnið er gefið. Á munnlega prófinu í efnafræði báðu þau um skilgreiningar á lewis, brönsted og arrhenius  sýrum og bösum, sýndu mér efni og spurðu hvernig sýra eða basi þetta væri og hvað myndi gerast t.d gefa eða þyggja rafeind / H+ osfrv. Einnig var spurt um suðu og bræðslumark efna, innan og millisameinda krafta, sýra og basi gefin og spurt hvaða efni er útkoman ef að við blöndum þessu saman og fl. Þau eru mikið að leitast eftir því hvað er á bakivið hlutina, hvernig þeir virka og afhverju. T.d hvernig myndast núningskraftur, hvað er núningskraftur og hvernig virkar hann.

Ekkert inntökupróf er nákvæmlega eins þar sem að munnlega prófið er mismunandi hjá öllum, í sumum tilfellum fær fólk að velja sér efni af gátlistanum og í öðrum er það spurt út í eitthvað sem að var ekki einu sinni á listanum. En aðal trikkið er að þó að þú fáir topic sem að þú veist ekkert um haltu bara ró þinni því að það eru mjög miklar líkur á að þú getir svarað næstu spurningu. Prófdómararnir fíla það í tætlur ef að þú hefur sjálfsöryggi,  þorir að standa á þínu og ert yfirvegaður.

Ekki gleyma að taka með nesti á prófstað þar sem að prófið er frekar langt eða frá um 7 að morgni til seinni parts og þá getur verið gott að grípa í eitthvað næs og peppandi.

Gangi þér ótrúlega vel og þú munt massa þetta!

– María G. Guðmundsdóttir

Reynslusaga 2:
Inntökuprófið kom mér að mörgu leyti á óvart, sérstaklega þar sem ég var nýbúinn að taka inntökuprófið hjá HÍ. Í fyrsta lagi þá var prófið sjálft mjög stutt. Í staðinn fyrir tveggja daga törn þar sem maður situr og tekur próf í marga klukkutíma þá fær maður bara sirka hálftíma til að leysa prófið, sem samanstóð af krossaspurningum og svo spurningum með stuttum skriflegum svörum úr líffræði og annað hvort efnafræði eða eðlisfræði. Ég valdi eðlisfræði og fannst það ekkert ákaflega krefjandi, þótt ég hafi bara fengið 41 stig af 100 í þeim hluta. Þótt að við höfum ekki fengið mikinn tíma þá átti ég persónulega ekki mjög erfitt með að klára prófið, en hefði alveg verið sáttur með auka 10 mínútur. Í öðru lagi þá voru prófdómararnir og Omer (sá sem heldur prófið á Íslandi) miklu grimmari en ég bjóst við. Áður en þið farið í munnlega prófið þá fáiði að vita hvernig ykkur gekk í skriflega prófinu og, ef ykkur gekk ekki mjög vel, þá getur vel verið að Omer segi eitthvað eins og „Your chemistry part was terrible“ eða „You did really bad on the biology part“. Ekki einmitt peppið sem maður þarf áður en maður gengur inn í munnlegt próf fyrir framan tvo óþekkta útlendinga. En þá er ekki tíminn til að gefa upp vonina, því jafnvel þótt þú hafir fallið á skriflega þá er enn möguleiki á að komast inn á BMC (Basic Medicine Course) ef þið standið ykkur vel í munnlega prófinu. Aðalatriðin til að hafa í huga í munnlega prófinu eru að sýna sjálfstraust, vera örugg/ur í því sem þú segir, og ekki segja ekki neitt. Það er alltaf betra að segja „I’m not entirely sure about that one“ eða „I can’t remember that right now“ heldur en að segja ekkert. Í þriðja og síðasta lagi þá kom það mér á óvart hvað ég kunni lítið af enskum hugtökum og var lélegur í að gefa svör á ensku. Sem viðmið þá hefur mér alltaf gengið mjög vel í ensku, bara níur og tíur út grunnskóla og menntaskóla, og að auki þá var ég búinn að undirbúa mig mjög vel fyrir íslenska inntökuprófið, en samt sem áður þá gat ég ekki útskýrt fyrir prófdómurunum einfalda hluti eins og eðli ljóss skv. bylgjukenningunni (transverse electromagnetic wave). Ég myndi vera búinn að stúdera vel ensku orðin fyrir þetta mikilvægasta, og mæli með Khan Academy til að muna þau betur. Annars myndi ég líka reyna að tala sem mest um það sem þið þekkið vel til þess að reyna að sleppa því að svara spurningum úr því sem þið þekkið verr, því þau hafa ekki endalausan tíma til að tala við þig. Þrátt fyrir allt þetta þá náði ég prófinu og komst inn, sem sýnir að þetta er ekki ómögulegt. Það er samt sem áður enginn heimsendir að ná ekki prófinu og vera boðið að taka BMC. Kærastan mín fór þann veg og er að hefja fyrsta árið sitt í læknisfræði núna í haust. Ef þið eruð að íhuga að fara í inntökuprófið þá mæli ég með því. Þetta er ekki auðvelt, hvorki prófið né námið, en það er lítið í lífinu sem er bæði auðvelt og gefandi, og fyrir mér þá var þetta fyrsta ár mitt úti í Ungverjalandi mest gefandi ár lífs míns.

Reynslusaga 3

Í prófinu færðu að velja áherslurnar.

Prófað er úr 3 fögum, Biology, Chemistry og Physics. Þið fáið að ákveða hvort þið setjið áhersluna á BIO+CHEM, eða BIO+PHYSICS. Þannig að fagið sem eftir situr á hakanum er bara örlítil prósenta og bara nokkrar spurningar.

Sýniprófið sem að Omer sendi með gaf ágæt skil á hvernig uppsetningin var, krossar, eyðufyllingar, skilgreiningar, útreikningar og merkja inná myndir en prófið var mikið þyngra en það sem hann gaf okkur.

Uppsetning prófsins er í 2 hlutum, skriflegt og munnlegt. 

Skriflegi hlutinn er sá sem að flestum gengur vel á. Topic listinn gefur ágæt skil á honum en mér fannst þeir fara mikið í dýpra í efnið heldur en ljósritin sem að Omer sendi með gáfu til kynna (auðvitað er það þannig, ætti ekki að koma neinum á óvart, en ég hvet þá sem reyna við þetta próf að láta ekki það eitt og sér ásamt því að læra allt á íslensku fyrir íslenska inntökuprófið duga fyrir  þetta próf).

BIOLOGY:

Farið vel yfir topic listann og verið með enskuna ykkar á hreinu, en ef hún er það ekki þá getið þið líka bara reddað ykkur með því að lýsa hlutnum/hvað hann gerir/hvar hann er og þar eftir götum.  Bara haldið alltaf áfram svo að prófdómarar sjái að þið kunnið allavega að fara með efnið, þó að enskan ykkar sé ekki uppá sitt besta.

Lærdómslega séð: Ég myndi mæla með fyrir munnlega hlutann að skrifa niður nokkur stikkorð úr hverju topic-i þannig að þegar að þú færð topic-ið að þú getir auðveldlega kallað fram þekkinguna þína þegar að því kemur.

CHEM:

Chemistry er kennd öðruvísi í Ungverjalandi, rosalega mikill utanbókalærdómur og pjúra skilningur á efninu, það er sjalgæft að þér sé gefið töflur, lotukerfi með einhverjum upplýsingum eða formúlublöð með öðrum heldur en nöfnunum og hvernig þau eru röðuð upp í lotukerfinu. Ekki lögð áhersla á að reikna eitthvað rosa mikið af dæmum eins og það er heima, endalaus reikningur á hinum og þessum efnafræðidæmum, auðvitað er líka reikningur hérna, en skilningurinn á fræðunum er aðaláherslan. Mæli með að þekkja hana ágætlega og kunna skil á helstu efnafræði conceptum og öllum topic-unum, electronegativity, electron affinity o.s.frv. Ennfremur gildin á aðalefnunum er gott að vita, sem og að vita sirka smá um charachteristics á helstu efnunum í efstu lotunni.

Þekkið einkenni flokkanna, lotanna, málmar, hálfmálmar, málmleysingjar, alkalímálmar, jarðalkalímálmar, halógenar, eðallofttegundir, og efstu lotuna mæli ég með að þekkja MJÖG vel.  Það er samt ekkert að örvænta ef að fólk hefur verið að læra mest á íslensku, þetta er alveg sama efnið, þekkið þetta bara efni og hugtökin á ensku.

PHYSICS: 

Ég valdi þetta sem þriðja fag.. Mæli með að fletta upp og vita hugtökin á ensku, viðnám, þrýsting, tilfærslu, krafta, vigra o.s.frv. Þar að auki er klassísk hornafræði svo mikið involveruð og nátengd henni svo menntaskólastærðfræðin á að hjálpa þar. Þetta eru samt svo fáar spurningar uppúr þriðja faginu svo látið það sitja algerlega á hakanum og ekki leggja áherslu á það. Ég tók það ekki sem aðalfag svo að ég get ekki skrifað neitt um þennan hluta nema hvernig hann kom sem þriðji partur.

En ef ég ætti að gefa dæmi um hvað gæti komið sem væri ekki í krossum þá væri það,  BIO: erfðafræðidæmi, hverjar eru líkurnar á að afkomandi af þessum aðilum hafi þetta trait/sjúkdóm/verði arfberi, og í CHEM: Hvað er molarity, molality, grömm af þessu eða hinu í þessari lausn eða títrun eða álíka, aldrei neitt flóknir reikningar samanborið við hvað við erum að læra á íslandi, en gengur meira út á skilning, og svo að teikna upp einhvern umbeðinn strúktúr í lífrænni efnafræði.

MUNNLEGI HLUTINN:

Eftir að búið er að fara yfir prófin ykkar eruði kölluð inn, eitt í einu og verðið spurð útí efnið. Prófdómararnir eru 2 og sitja andspænis þér og spyrja þig út í topic af topic listanum. 

Ef þú hefur einhverja reynslu af munnlegum prófum á íslandi í framhaldsskólunum er þetta alveg ólíkt þeim. Auðvitað er þetta líka einhver heppni sem og hvaða prófdómara þú færð. Þegar ég spurði sjálf eldri nemendur fékk ég allann skalann af svörum. Eitthvað sem að ég hefði viljað vita með þann hluta var að hafa confident og attitúd.

Ekki láta það slá þig af laginu ef að prófdómararnir eru dónalegir eða hranalegir og grípa fram í fyrir þér þegar þú ert að tala, þeir eiga það til að vera mis-næs en þeir eru bara að þessu til að sía út fólk sem þeir halda að höndli ekki álagið sem fylgir þessum starfsgeira, að vinna vel undir pressu.  Svo ekkert vera að láta það á þig fá og vertu bara ákveðin/n, þeir fýla töffaraskap (ekkert hroka samt eða þannig), en í grunninn getur maður talað sig upp og stjórnað hvert þú vilt fara með umræðuna um topic-ið þitt.

Þegar ég fór í prófið mitt fékk ég mjög smámunasamann prófdómara. Þegar vinkona mín fór ári seinna voru þeir mjög og voru bara að spjalla um Ísland og fjallgöngur og þar eftir götum því hún setti það á CV undir Hobbies og fóru mjög grunt í topic-ið á meðan að ég var spurð um öll skrefin í Krebs cycle.

Ég hefði viljað vita það sjálf að þetta væri taktíkt hjá þeim að sía þá út sem höndla ekki að kalla fram þekkinguna sína undir pressu.

Og líka eitt í lokin þeir fýla líka mjög mikið fólk sem stendur upp fyrir sjálfu sér, svona smá dæmi; ef að löggann stoppar þig á Íslandi, þá borgar maður bara, en með þessa ungverja, þa ferðu nú bara að tala um að þú hafir ekki verið á þessum hraða neitt og þessi hraðasekt se ekki réttmæt… Þannig setjum þetta inní þetta inntökupróf: Segðu að þú sért alveg tilbúin/n til að fara beint inná fyrsta ár (ef þau segja að þig vanti uppá í enskunni eða að þig vanti betri undirbúning og mæla með að taka pre-med kúrsinn þeirra, BMC (BasicMedicineCourse)). Þá segið þið bara nei, ég er tilbúin til að fara á fyrsta ár og er viss um ef ég fæ tækifæri til þess muni ég standa mig vel og bera ábyrgð á náminu mínu.  Hafa bein í nefinu.

Samantekt:

-Komið með attitúd og ekki gefast upp, hafið gott sjálfstraust svo þið farið beint inn á fyrsta ár.

-Verið komin með góða tilfinningu fyrir ensku og þekkið fræðin í chem vel og hugtökin í bio.

-Ekki vanmeta prófið samt, þau eru búin að þyngja prófið síðustu ár þar sem að skólinn er búinn að fá betri gæðastimpil með hverju árinu og orðinn vinsælli svo að prófið sem eldri nemendurnir hafa verið að taka voru léttari heldur en þessi sem nýnemar eru búnir að vera að taka.

-Aðalatriðið er að pimpa upp enskuna og negla þetta

Gangi ykkur vel, þið rúsið þessu!

Reynslusaga 4

Að taka inntökuprófið í University of Debrecen var ekki beint það auðveldasta sem ég hef gert á ævinni, og þess vegna vil ég benda ykkur á fáeina hluti sem geta gert ykkar próf aðeins auðveldara.
1. Farið vel yfir ensk hugtök og æfið ykkur í að útskýra hluti á ensku. Ég undirbjó mig ekki alveg nógu vel hérna og fann fyrir því í munnlega prófinu.
2. Omer er ekki vinsamleg manneskja og það verða prófdómararnir örugglega ekki heldur. Þú gætir fengið að heyra það að „your chemistry was terrible“ eða „you did really bad on your biology part“ en það þýðir ekkert að taka þetta inn á sig. Best er að halda í sjálfstraustið og vera örugg/ur.
3. Prófið er mjög stutt og eitt svar getur ráðið úrslitum í því hvort þið komist inn eða ekki. Verið örugg í svörunum ykkar og ekki eyða of miklum tíma í eitt svar. Verið undirbúin að svara hratt og vel.
4. BMC er mjög góður undirbúningur fyrir læknisfræði. Ekki svekkja ykkur yfir því að komast bara inn á BMC. Ef þið klárið BMC og fallið ekki þá fáiði sjálfkrafa inngöngu í læknisfræði og eruð mjög vel undirbúin fyrir vikið.